jump to navigation

Hið deyjandi Moggablogg október 31, 2009

Posted by Agnar Kristján Þorsteinsson in Fjölmiðlar, Hitt og þetta, Vefurinn og umræða.
trackback

Frá því að ég hætti á Moggablogginu, í kjölfar ráðningar Hrunvaldsins mikla í áróðurstjórnarstól LÍÚ, þá hefur heimsóknum mínum fækkað þangað og varla farið inn a fréttavefinn sjálfan. Maður hefur fylgst með öðru auganu með þróuninni þar og lyft brúnum yfir því hversu hratt Hrunvaldurinn mikli og dárar hans, eru að drepa vefinn sem slíkan því hnignunarskeið deyjandi umræðuvefja er þar komið á ofurhraða.

Ferlið er yfirleitt eins. Fyrst kemur einhver stóratburður sem heggur á trúverðugleika vefsins og stjórn hans(ráðning Davíðs Oddsonar í þessu) og fjölmargir hverfa á brott, sérstaklega margir af þeim málefnalegri. Eftir það högg, róast yfirleitt aftur, þeir málefnalegu sem héldu tryggð ennþá, vilja ekki færa sig um set vegna þess að þeir eru vanir umhverfinu(sem er mjög gott hjá blog.is), telja að þetta lagist aftur o.sv.frv. Sjáanleg minnkun á aðsókn sést þó og færri taka þátt í umræðum sem voru líflegar áður.

Þá kemur næsta högg sem er oftast nær, tengt ákvarðanatökum stjórnenda. Slíkir hlutir hafa verið að gerast upp á síðkastið, Litli Landsímamaðurinn rekinn af blogginu fyrir að skrifa gagnrýnna grein á Baldur Guðlaugsson en ekki stuggað við manni sem hvetur til dráps á forsætisráðherra og fjármálaráðherra, heldur er viðkomandi hampað sem forsíðubloggara. Hlutlæg ritskoðun hefur semsagt orðið æ ljósari en áður, ritskoðun sem veldur því að fólk með skoðanir andstæðar eigendum og stjórnendum, hugnast ekki lengur að varpa þeim fram á vettvangi viðkomandi miðils.

Slíkt olli því að allavega einn eðalpenni sem er í miklu uppáhaldi, Svanur Gísli Þorklesson, lét sig hverfa nú ásamt því að margur maðurinn er byrjaður að íhuga hvort þeir eigi heima í þeim hópi sem er orðinn ráðandi á Moggablogginu: ofsatrúarmenn og öfgafullir andstæðingar ESB sem froðufellandi öskra landráð og föðurlandsvikari í öðru hverju orði, sem flestir aðhyllast einmitt stjórnmálaskoðanir þær sem áróðurstjórinn aðhyllist.

Næst sem gerist er að umræðuflóran verður einsleitari, færri og færri taka til máls, það verður minna og minna um nýjar raddir, nýja umræðuvinkla og ferskar pælingar. Að lokum eftir 1-5 svona högg í viðbót, verða aðeins örfáir fyrirsjáanlegir aðilar eftir í umræðunni sem gengur út á skítkast og „Já, Nei, Víst“-upphrópanir sem menn nenna varla að lesa. Þá hefur aðsókn minnkað, vægi vefsins í almennri umræðu minnkað, auglýsingagildi minnkað. Yfirleitt í kjölfarið reyna þá stjórnendur að ná tökum á umræðunni á ný, umræðunni sem þeir eyðilögðu með aðgerðarleysi, misráðnum ákvörðunum og mjög hlutlægri ritskoðun en það er of seint, vörumerkið er dáið eða samnefnari fyrir það sem skolast til hafs í gegnum ræsi borgarinnar.

Það sem er þó áhugavert við þetta ferli á Moggablogginu, er hversu fljótt það hefur gengið yfir því ferlið frá fyrsta höggi til næsta, er nokkrir mánuðir upp í ár. Þarna hefur þeim tekist þetta á ca. mánuði og hafa sett nýtt met e.t.v. Geri aðrir betur.

Svo get ég ekki annað í lokin en skrumað aðeins, en að láta vita að ég ásamt fleirum, erum að koma upp bloggvef og verður það tilkynnt með látum bráðlega þegar hann fer í loftið. Maður stenst ekki svona auglýsingatækfæri, fyrst fólk nennti að lesa svona langt.

Athugasemdir»

1. Einar Karl - október 31, 2009

Hverju orði sannara. Ég fer æ sjaldnar inn á moggabloggið, ekki af einhverri prinsippástæðu heldur vegna þess að minna og minna er skrifað þar af viti, og það drukknar í einsleitu öfgarausi.
Einn sá seinasti til að yfirgefa hið sökkvandi skip af þeim sem ég hef lesið er Ómar Ragnarsson, nú kominn á Eyjuna.

Vissulega eftirsjá af blog.is vettvangnum en það má búa til nýjan vettvang, því enn vilja menn tjá sig og skiptast á skoðunum!


Færðu inn athugasemd