jump to navigation

Vísindaveiðar hagsmunaaðila:Til varnar Hafró nóvember 1, 2009

Posted by Agnar Kristján Þorsteinsson in Atvinnumál, Hitt og þetta, Stjórnmál, Vefurinn og umræða.
trackback

Eitt sinn vann ég í fjölda ára á ríkisstofnun sem kallast Hafrannsóknastofnun. Þar á bæ vinnur fjöldi fólks við vanþakklát vísindastörf í þágu þjóðar, búandi við orradrífu skítkasts, misgáfulegra upphrópanna og stanslausar ákúrur og heimtingar hagsmunaaðila sem þola ekki að heyra annað en það sem þeir vilja að sé sagt við þá.

Engar slæmar fréttir, bara jákvæðar mega berast þaðan í þjónkun við peningalega hagsmununi þeirra einna, ekki framtíðarhagsmunum þjóðarinnar og ástandi auðlindar hennar.Öll rök og gögn eru hundsuð, vísindamenn þar og stofnunina sjálfa er reynt að gera eins tortryggilega og hægt er, töfralausnir sem eiga að skila ásættanlegri niðurstöðu fyrir hagsmunaaðilana er stöðugt haldið á loft í upphrópununum sem drekkja faglegri umræðu og slæmum fréttum þar sem sendiboðinn er skotinn af þeim sem hrópa hæst. Kunnuglegt er það ekki? Minnir þetta ekki frekar mikið á skýrslurnar varðandi bankanna fyrir hrun?

Nú í umræðunni þessa daga hefur verið slengt fram þeirri hugmynd að hagsmuna-aðilarnir sjái sjálfir um rannsóknir. Að mínum dómi er þetta vanhugsuð hugmynd og ekki bara út frá þeim grunni sem ég byrjaði á að benda á, heldur einnig af fenginni reynslu minni af þeim ágæta vinnustað Hafró og hvernig vísindavinna þeirra fer fram, nokkuð sem greinilega þingmenn ættu að kynna sér áður ásamt vísindavinnu almennt, en þeir slengja fram hugmyndum um hvernig starfið á að vera samkvæmt hugmyndfræði manna með rörsýn í þágu sinna eigin peningalegu hagsmuna.

Svo við hefjum smá útskýringar á starfseminni þar og hvernig vinnan fer fram, þá byggja allar niðurstöður á gögnum, ekki bara vísindagögnum sem Hafró safnar heldur einnig aflaskýrslum og sýnum sem veiðieftirlitsmenn Fiskistofu taka. Gögnin sem eru söfnuð af Hafró fást í gegnum leiðangra sem þeir fara og sýnatöku á afla sem landað er frá skipum og bátum.

Rannsóknaleiðangrarnir sem Hafró fer svo, safna gögnum á fyrirfram ákveðnum stöðum vítt og breitt um fiskveiðilögsöguna, ekki bara hvar þorskurinn heldur sig hverju sinni. Eru tekin mörg hundruð tog með ákveðinni gerð af trollum, þar sem allir fiskar sem koma upp eru mældir og taldir. Fjöldinn allur af tegundum fá svo ítarlegri meðferð þar sem visst magn er ekki bara mælt, heldur einnig kyngreint, vigtað, lifur vigtuð, innihald magans skoðað(nokkuð sem er ekki sérlega skemmtilegt fyrir sjóveika, sérstaklega þegar túrtappar og manni úr Fáskrúðsfirði er uppistaðan) og kvarnir teknar.

Svo maður útskýri nánar hvað kvarnir eru, þá eru það tvær beinflísar í haus fisksins þar sem hægt er að lesa aldur hans úr og er það notað til að bera saman við lengd/vigt til að leita svara við spurningum um fiskinn. Er fiskurinn eðlilega þungur? Er hann stór miðað við aldur? Hversu fljótt eru þeir að ná ákveðinni stærð? Hvað er hlutfallsega mikið ungviði í aflanum? Fækkar gamalmennunum í hafinu?

Öll rannsóknavinnan er unnin samkvæmt mótaðri aðferðafræði en ekki eftir hendinni, til að ná sem bestri gagnasöfnun sem hægt er að reiða sig á, ekki bara í dag heldur eftir tugi ára þar sem vísindamenn eiga að geta tekið gögn og skoðað þróunina aftur í tímann, treystandi á að það hafi verið rétt að verki staðið og unnið með hlutlausum, faglegum vinnubrögðum á vísindalegan hátt, ekki með populismahætti stjórnmála eða græðgissjónarmiðum hagsmunaaðila sem hugsa til skamms tíma.

Þar komum við einmitt að þessari hugmynd sem nú hefur verið hent fram, að fjöldinn allur af hagsmunaaðilum sjái um rannsóknirnar í 6-9 mánuði. Hefur þessi hugmynd verið hugsuð til enda? Fyrir fyrsta stað, hvernig á að manna þetta? Eiga vísindamenn að vera um borð í hverju skipi til að sjá um mælingar og sýnasöfnun? Eða á áhöfnin að sjá um þetta alveg? Verða öll skipin með sama veiðibúnað? Eiga þau einnig að veiða þar sem seiði og undirmálsfiskur eru? Hvað með ónýttar tegundir eða ónýtanlegar tegudnir? Á að mæla þær? Hvernig á að tryggja áreiðanleika gagna? Hvernig á að fjármagna þetta?Er vinnuumhverfi undir stjórn manna sem vilja fá sem mest fé á sem minnstum tíma, heppilegt fyrir vísindavinnu?

Þetta eru svona spurningar sem maður spyr því þetta er eitthvað sem þarf að vera hægt að svara strax, ef menn eru að bera fram svona hugmynd.

En það er ekki bara spurningar sem ég ber fram um þessa hugmynd, heldur einnig reynslu mín af rannsóknaleiðöngrum. Þar skulum við staldra sérstaklega við vinnu í togararalli, þar sem vísindastörf vs. sjómannsvinnan stangast oft á, sérstaklega þar sem vinnubrögðin eru gerólik. Þessum dugnaðarforkum sem sjómenn eru, finnst nefnilega sumum hverjum þetta hálfgerð óþörf dútlvinna sem vísindavinna er, þeir telja að það eigi að ganga áfram eins hratt og hægt er svo hægt sé að ná meiri fisk sem fyrst um borð. Þeir eru nefnilega á hlut, þ.e. fá borgað eftir aflamagni ólíkt vísindamanninum sem er á föstu timakaupi.Svo fók skilji hversu mikill tími fer í gagnasöfnun á sjó, þá tekur nær því 1,5 tíma að mæla og taka sýni úr klukkutímalöngu togi í togararalli, að meðaltali.

Einnig telja þeir smáfiska ýmsa og tegundir sem eru ekki nýttar, bara rusl sem á ekkert að vera að eyða tíma sínum í og skola eigi út með brottkastinu, brottkasti sem viðgengst í mismiklu magni í örugglega flestum ef ekki öllum skipum flotans, brottkasti þar sem menn henda jafnvel ágætum matfiski vegna þess að það fæst ekki nógu gott verð fyrir hann á markaði. Ekki nema von líka að það þurfi að reikna með brottkasti í reiknilíkön Hafró.

Ég er á því að þessi hugmynd um að setja vísindaveiðarnar í fangið á þeim sem hafa hag af því að veiða sem mest eða stjórnast af hagsmunum markaðarins sé ekki bara heimskuleg, heldur einnig hættuleg hugmynd sem minnir helst á þá athöfn þegar Þjóðhagsstofnun var lokað og greiningardeildir bankanna fengu það hlutverk að koma með efnahags og markaðsspár. Þar munu sjónarmið gróðahyggjunar stjorna, ekki fagleg. hlutlaus sjónarmið og ég blæs á þær röksemdir manna að Hafró sé ekki hlutlaus stofnun, sérstakelga komandi frá fiskverkendum sem vilja meiri afla, því af reynslu minni í starfi þar þá starfar þar fínt fólk sem vinnur vinnu sína faglega og með hlutlausum augum á þau gögn sem það hefur undir höndum, en ekki af einhverjum annarlegum hvötum líkt og þeir sem vilja veiða sem mest halda fram.

Ég allavega vona að fólk hætti þessum 2007-bankahugsunarhætti í tengslum við Hafró, taki umræðuna á vísindalegum og faglegum grundvelli en ekki pólitískum og markaðsvæddri skammtímahugsjón, og hætti að skjóta sendiboða slæmra tíðinda vegna þess að það er svo þægilegt. Kvótakerfið er gagnrýnisvert á grundvelli brasksins sem þar viðgengst og örugglega fleiru, en þegar kemur að vísndalegum þáttum og kenningum, þá eiga menn að hlusta á rök og gögn vísindamanna, en ekki populista, jafnvel þó okkur mislíki tíðindin.

Sú svelta vísindastofnun sem Hafró er og fólkið sem vinnur þar á það skilið hið minnsta, að borin sé virðing fyrir störfum þeirra sem unnin eru af fagmennsku og heiðarleika og þeirra miklu vinnu sem skilar eingöngu vanþakkæti og skítkasti í þeirra garð sem þau þola þögul, allan ársins hring af hálfu gráðugra gasprara með einhliða, fyrirfram mótaða rörsýn á hlutina og jafnvel brjálæðislegar samsæriskenningar um annarlegt alþjóðasamsæri fiskifræðinga.

Athugasemdir»

1. Turkije vakantie - ágúst 23, 2019

obviously like your web-site however you need to check the
spelling on several of your posts. A number of them are rife with spelling issues
and I find it very troublesome to inform the reality on the other hand I’ll certainly come back again.


Færðu inn athugasemd